Guðfinna Óskarsdóttir
mbl.is - 30. maí 2009 | Minningargreinar
Guðfinna Óskarsdóttir fæddist á Siglufirði 18. desember 1946. Hún lést 20. maí 2009.
Foreldrar hennar eru (Rósant) Óskar Sveinsson, sjómaður og verkamaður
á Siglufirði, f. 24. okt. 1903, d. 14. des. 1983, og Elín Jónasdóttir, húsmóðir á
Siglufirði, f. 16. maí 1908.
Lifir enn nú rúmlega 101 árs gömul á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði.
Alsystkin Guðfinnu eru:
- Trausti Haukur Óskarsson bólstrarameistari, f. á Siglufirði 12. jan. 1941, kvæntur Jónu Maggý Þórðardóttur frá Siglufirði, f. 24. febr. 1947, og
- Guðlaug leikskólakennari, f. á Siglufirði 1. júní 1942, gift Sumarliða Karlssyni, f. 24. mars 1945, áður gift Jóhannesi Wilhelmus Hanssen, f. 27. okt. 1928, d. 5. apríl 1987.
Auk þess átti Guðfinna
fjögur hálfsystkini, samfeðra,
þau eru
- Helgi Óskarsson, fyrrv. skipstjóri, býr í Noregi, f. 27. mars 1925,
- Kristján Hólm Óskarsson, fyrrv. skipstjóri, býr í Þýskalandi, f. 28. júní 1929 og
- Sigurjón Hólm Óskarsson, fyrrv. verkamaður, nú á dvalarheimilinu Fellsenda í Dalasýslu,
f. 28. júní 1929,
Kristján og Sigurjón eru tvíburar. - Guðmunda Sigríður Óskarsdóttir nuddari, bjó á Dalvík, f. 11. júní 1938, d. 25. des. 2003.
Guðfinna giftist 20. maí 1972 Magnúsi Þór Jónassyni frá Grundarbrekku í Eyjum, f. 4. maí 1947. Börn Guðfinnu og Magnúsar eru Þórarinn, vélvirki á Bílaverkstæði Muggs í Eyjum, f. 18. maí 1974, Elín Ósk, vinnur við aðhlynningu á dvalarheimilinu Hraunbúðum í Eyjum, og Sævar Þór, lyftaramaður hjá Vinnslustöðinni, f. 31. júlí 1984.
Guðfinna fæddist á Suðurgötu 68 á Siglufirði og átti heima þar allar götur þar til hún
flutti að heiman.
Hún gekk í Barnaskóla Siglufjarðar og síðar í Gagnfræðaskólann þar og lauk prófi sem gagnfræðingur vorið 1963. Var síðan á
Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði veturinn 1964-1965. Vann sem unglingur við fiskverkun og síðan verslunar- og skrifstofustörf á Siglufirði. Fór svo til Akureyrar og vann
á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og lauk sjúkraliðaprófi þaðan vorið 1969. Eftir að hún lauk námi á Akureyri fluttist hún til Reykjavíkur og fór
að vinna á Borgarspítalanum sem sjúkraliði.
Í ágúst 1971 fór hún svo til Vestmannaeyja og réð sig sem sjúkraliða á Sjúkrahús Vestmannaeyja. Þar
kynntist hún eftirlifandi manni sínum, Magnúsi Þór Jónassyni.
Þau giftust 20. maí 1972. Guðfinna lést 20. maí 2009, þannig að þau voru búin að vera gift
í nákvæmlega 37 ár þegar hún dó, á brúðkaupsdegi þeirra.
Guðfinna og Magnús hófu búskap strax eftir giftingu, fyrst í Grænuhlíð 9 í Eyjum, en það hús höfðu þau þá nýlega keypt. Bjuggu þar í sjö mánuði eða fram að gosi. Húsið fór undir hraun í gosinu. Þau flúðu til Reykjavíkur og bjuggu þar í rúmt ár, en fluttust aftur til Eyja og byggðu sér hús á Höfðavegi 28. Guðfinna vann lengst af á Sjúkrahúsinu í Eyjum, er sá tími nú mældur í tugum. Hún var fyrst og fremst húsmóðir á sínu heimili, ól upp börnin sín þrjú.
Guðfinna verður jarðsungin frá Hvítasunnukirkjunni í Vestmannaeyjum í dag, 30. maí, kl. 14.
Elsku mamma nú ert þú farin til himins og líður miklu betur af því þú varst orðin svo mikið veik – þjáðist svo mikið.
Þú varst alltaf svo góð við mig, sama hvað á dundi eða hvað ég gerði af mér þá varst þú alltaf tilbúin að fyrirgefa mér.
Ó, hvað það var nú alltaf gott að leita til þín með vandamálin – varst alltaf tilbúin að hlusta og hjálpa til við að leysa allt sem uppá kom. Sama hvað vandamálið var stórt, alltaf varst þú til staðar og hjálpaðir mér.
Nú stöndum við eftir, ég, pabbi, Elín Ósk systir og Sævar Þór, litli bróðir. Við munum alltaf minnast þín – við eigum svo góðar minningar um þig elsku mamma mín.
Við reynum að gera eins og þú lagðir fyrir okkur, að styðja hvert annað í gegnum þessa erfiðu tíma sem nú eru.
En allar góðu minningarnar um þig, elsku mamma mín, eru eftir hjá okkur.
Þinn elskandi sonur,
Þórarinn.
-------------------------------------------------------------
- Drottinn gaf og Drottinn tók,
- Lofað veri nafn Drottins.
(Jobsbók 1:21)
Elsku ástin mín – nú hefur Drottinn okkar og frelsari tekið þig til sín. Þú ert komin til hans í dýrðina, þar sem engir sjúkdómar eru og engar kvalir. Bara eilífð dýrð.
Þetta er huggun mín í sorginni – í öllum tómleikanum.
Við sem elskuðum hvort annað svo heitt – en fáum ekki að njóta þess lengur. Það er svo sárt. Tómarúmið er svo stórt. En við hittumst aftur hjá Föður okkar á himnum.
Ég og börnin okkar söknum þín svo sárt. Skarðið verður ekki fyllt. En minningarnar eru svo ljúfar, svo margar og miklar. Við þær yljum við okkur nú þegar þú ert farin.
Allt var þetta svo snöggt – svo hart og erfitt, en ég fékk að vera hjá þér allt þar til þú sofnaðir – sofnaðir svo vært.
Dagurinn sem þú kvaddir var okkur svo kær – 20. maí – giftingardagurinn okkar. Þessi stóri, mikli gleðidagur okkar fyrir 37 árum var okkur svo kær. Við héldum alltaf uppá hann sem einn besta dag í lífi okkar. Þá eldaðir þú góðan mat, við kveiktum á kertum í stofunni og áttum ljúfa kvöldstund.
Allar þessar góðu minningar – góðu stundirnar – skemmtilegu ferðalögin og-og-og ..
Ástin mín – ég kveð þig núna, en við hittumst aftur og þá verður gleði – gleði – gleði.
- Þessi lilja er mér gefin af guði
- hún grær við hans kærleik og náð,
- að vökva hana ætíð og vernda
- er vilja míns dýrasta
ráð.
- Og hvar sem að leiðin mín liggur
- þá liljuna í hjartastað ber,
- en missi ég liljuna ljúfu
- Þá lífið er horfið frá
mér.
(Þorsteinn Gíslason.)
Þinn heittelskandi eiginmaður,
Magnús Jónasson.
--------------------------------------------------------------------
Elsku mamma mín. Nú eru kvalirnar þínar horfnar frá þér. Ég veit að þér líður vel hjá Frelsara okkar og að hann tók svo vel á móti þér.
Þú varst mér svo góð í öllum mínum veikindum og pabbi líka. Ég reyndi líka að vera þér góð dóttir og ég veit að þú elskaðir mig.
Ég sakna þín svo mikið, allt svo miklu tómlegra. Engin mamma þegar ég kem heim og engin mamma til að minna mig á pillurnar mínar.
Ég veit að nú reynir á mig, núna verð ég að taka við af þér og reyna að gera hlutina eins vel og þú gerðir. Allt sem þú gerðir var svo vel gert og gert af svo mikilli einlægni.
Ég ætla að reyna að vera eins dugleg og þú og standa mig eins og þú innprentaðir mér, að gera allt eins vel og ég gæti. Þá farnaðist mér vel.
Elsku mamma, þú varst svo góð fyrirmynd.
Takk fyrir elsku þína í gegnum árin. Takk fyrir allt – allt – allt.
Þín einkadóttir, Elín Ósk.
------------------------------------------------------
Hinsta kveðja
- Sárt er vinar að sakna.
- Sorgin er djúp og hljóð.
- Minningar mætar vakna.
- Margar úr gleymsku rakna.
- Svo var þín samfylgd góð.
- Daprast hugur og hjarta.
- Húmskuggi féll á brá.
- Lifir þó ljósið bjarta,
- lýsir upp myrkrið svarta.
- Vinur þó félli frá.
- Góða minning að geyma
- gefur syrgjendum fró.
- Til þín munu þakkir streyma.
- Þér munum við ei gleyma.
- Sofðu í sælli ró.
(Höf. ók.)
Guð blessi þig að eilífu kæra vinkona. Aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Elín Gestsdóttir (Ella skólasystir).
------------------------------------------------------
mbl.is - 5. júní 2009 | Minningargreinar | 219 orð | 1 mynd
Guðfinna Óskarsdóttir fæddist á Siglufirði 18. desember 1946. Hún lést 20. maí síðastliðinn og var jarðsungin frá Hvítasunnukirkjunni í Vestmannaeyjum 30. maí.
Elsku mamma. Nú er allt svo einmanalegt og skrítið. Þú ekki hjá mér – ekki hægt að tala við þig um hlutina. Tala við þig um erfiðleikana eins og þeir blöstu við mér. Þú hafðir alltaf ráð – alltaf svo jákvæð og góð.
Það er svo skrítið að geta ekki knúsað þig – það síðasta sem þú baðst mig um á sjúkrahúsinu var að knúsa þig og kyssa þig á kinnina – ekki einu sinni heldur oft. Þú sagðist elska mig svo mikið og ég elskaði þig líka svo mikið. Þetta var það síðasta sem fór okkur á milli áður en þú kvaddir og fórst til Guðs. Það er svo gott að hafa þessa ljúfu minningu um þig, elsku mamma mín.
Svo varstu deyfð til að linar þjáningarnar – æ, það var svo sárt.
Nú sitjum við hér eftir og eigum allar góðu minningarnar um þig – alltaf svo glöð og hress. Hvattir okkur til að vera góð börn, gera alltaf okkar besta og þá myndi okkur farnast vel. Það ætla ég að reyna.
Elsku mamma mín, ég mun alltaf sakna þín – en góðu minningarnar um þig á ég eftir.
Þinn elskandi sonur,
Sævar Þór Magnússon.
---------------------------------------------------------------
mbl.is - 11. júní 2009 | Minningargreinar
Guðfinna Óskarsdóttir fæddist á Siglufirði 18. desember 1946. Hún lést 20. maí síðastliðinn og var jarðsungin frá Hvítasunnukirkjunni í Vestmannaeyjum 30. maí.
Í dag kveðjum við kæra vinkonu, Guðfinnu Óskarsdóttur, sem fallin er frá langt um aldur fram. Við minnumst hennar með mikilli hlýju. Guðfinna var glaðlynd og glettin kona og ákaflega góð heim að sækja. Það var sko boðið upp á fleira en „kex og kringlur“ með kaffinu á Höfðaveginum. Heimilið ber henni fagurt vitni.
Hún var lagin við allt sem hún tók sér fyrir hendur, hvort sem það var prjónaskapur og útsaumur, bakstur eða blómin. Blómin hennar voru alltaf í fullkominni rækt. Hún einfaldlega sinnti öllu af alúð og ánægju. Hún gat leyft sér að vera stolt af sínu. Okkar fyrstu kynni af Guðfinnu voru þegar Maggi kom með hana í heimsókn á Sólhlíðina. Hann hafði fundið hana í „Villunni“,
Villan var lítið hús við gamla sjúkrahúsið en þar voru vistarverur fyrir aðfluttar hjúkrunarkonur. Þau sátu þétt saman í nýja græna sófanum okkar sem stóð við rauðbetrekktan austurvegginn í stofunni. Falleg umgjörð um ástfangið par. Þau glettust og spauguðu, augun tindruðu. Það var alveg ljóst að úr þessu yrði hjónaband. Já, já, okkur var fljótlega boðið til brúðkaups og veislan var haldin í Grænuhlíðinni þar sem fyrsta heimilið þeirra var.
Eftir eldgosið á Heimaey eignuðust þau síðan hús á Höfðavegi 28 og þar er heimilið enn í dag. Börnin fæddust eitt af öðru. Við héldum sambandi með heimsóknum, börnin léku sér saman og svo var kaffi og með því í eldhúsinu. Við áttum margar góðar stundir saman. Eitt sumarið fórum við saman til Þýskalands, gistum uppi á hæð með útsýni yfir Rín. Kvöldgöngurnar eru enn í fersku minni. Svo var það snemma veturs 2007 að okkur hjónum var boðið til veislu, það var mjög sérstök og skemmtileg veisla. –
Þau héldu upp á 60 ára afmæli Arnar og Guðfinna reiddi fram frábæran kvöldverð. Hún hló dátt og sagði með stríðnisglampa í augum: „Við komum bara með veisluna til þín úr því að þú flúðir til útlanda á afmælinu þínu.“ Þetta kvöld er nú ein af bestu perlunum í okkar minningasjóði. Auðvitað gerðum við slíkt hið sama við Magga þegar hann var orðinn sextugur. Það er nú skarð í okkar vinahópi og er það alveg ljóst að hún á sinn sess í hjörtum okkar. Megi hún ganga á guðs vegum.
- Brostinn er bjartasti strengur
- með bergmálið mjúka og þíða.
- Hljómar þess heyrast ei lengur
- í hjörtum þó geymist hann víða.
- Minning um konu og móður
- mildi og ástina mestu.
- Vorblærinn ber hennar hróður
- brosin og handtökin bestu.
(Hilmir Högnason)
Kæru vinir, Maggi, Þórarinn, Elín Ósk og Sævar. Við sendum ykkur einlægar samúðarkveðjur. Guð geymi ykkur.
Hrefna og Örn.