Erna Margrét Oddsdóttir
mbl.is - 30. ágúst 2021 | Minningargreinar
Erna Oddsdóttir fæddist á Akureyri 20. maí 1937. Hún lést í Svíþjóð 13. maí 2019.
Foreldrar Ernu voru Oddur Vagn Hjálmarsson og Gunnfríður Friðriksdóttir.
Erna á þrjú eftirlifandi systkini;
- Hannes Oddsson, f. 1939,
- Hafstein Oddsson, f. 1947, og
- Ingibjörg Oddsdóttir (Bíbí), f. 1943.
Erna var gift Hauki Jónassyni skipstjóra, f. 1936, d. 2015.
Börn þeirra
eru:
- 1) Fanney, f. 1960, gift Þorkeli Kristjánssyni og
eiga þau tvö börn;- Dóru Diego, sem er gift Daniel Hunt og eiga þau þrjú börn, og
- Arnór, sem er í sambúð með Denise og eiga þau tvö börn.
- 2) Íris Elva, f. 1962. Hún á tvö börn;
- Hauk Örn, sem er í sambúð
með Jóhönnu
og á hann tvö börn, og - Rebekku Margréti, sem er í sambúð með Jóhanni og eiga þau tvö börn.
- Hauk Örn, sem er í sambúð
með Jóhönnu
- 3) Oddur, f. 1963, giftur
Höllu Fríðu Kristjánsdóttur.
Oddur á þrjú börn frá fyrra sambandi;- Hafþór Örn,
- Ernu Margréti, sem er í sambúð með Bjarna og eiga þau eina dóttur, og uppeldissoninn
- Þorleif Árna, sem er giftur Hildi Droplaugu og eiga þau þrjú börn.
Fyrir á Halla Fríða - Oliver Þór og
- Karen Ósk.
- 4) Nína Vilborg, f. 1966, gift Bjarna Lárusi Harðarsyni og eiga þau þrjú börn;
- Hörð Agnar,
- Marinó Fannar og
- Elínu Elísabetu.
Erna flutti fjögurra ára til Siglufjarðar. Hún hóf ung nám í hárgreiðslu en varð að hætta vegna veikinda en þeir voru ófáir sem komu heim til hennar í klippingu. Einnig vann hún á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og í rækjuvinnslunni. Árið 1989 fluttu þau hjónin til Svíþjóðar þar sem hún vann ýmis störf, þar á meðal á Sjúkrahúsinu í Lammhult.
Minningarathöfn fór fram í Svíþjóð 20. maí 2019.
Erna verður jarðsett í Sóllandi
í dag, 30. ágúst 2021.
----------------------------------------------------------------------
Elsku fallega og besta mamma, nú ertu komin í faðm pabba í sumarlandið. Eftir lifir minning um elskulega mömmu sem var alltaf til staðar með hlýju og umhyggju fyrir okkur. Mamma var gull og gersemi og vorum við systkinin svo lánsöm að eignast hana fyrir mömmu. Þegar við vorum lítil varst þú mikið með okkur ein því pabbi var mikið á sjónum, þú gafst okkur allan þinn tíma þótt þú ynnir allan daginn og voru ófáar sögurnar sem þú sagðir okkur á hverju kvöldi. Þú passaðir vel upp á alla fjóra ungana þína með mikilli ást.
Oftar en ekki leituðum við ráða hjá þér og alltaf hafðir þú góð ráð að gefa. Þú vildir allt fyrir okkur gera og settir okkur alltaf í fyrsta sæti. Ykkur pabba tókst að byggja upp sterka og samheldna fjölskyldu þar sem umhyggja og ást var í fyrirrúmi. þegar við komum öll saman var alltaf gleði og mikið hlegið enda ultu brandararnir upp úr þér.
Eftir að þið pabbi fluttuð til Svíþjóðar voru allar stundir nýttar til hins ýtrasta og vorum við öll mikið saman með mökum og barnabörnum, oft var þröng á þingi, dýnur út um allt, en þannig vilduð þið pabbi hafa það, okkur öll saman. Þú elskaðir barnabörnin og barnabarnabörnin enda sóttu þau mikið í þig enda gafstu þeim alltaf tíma til að spjalla og lékst mikið við þau.
Það eru ófáar minningar sem við eigum saman eins og þegar við mæðgurnar fórum allar saman í algjöra prinsessuferð til Búlgaríu og síðasta ferðin með þér sem við fórum öll systkinin fyrir tveimur árum til Kýpur þar sem við áttum yndislegar stundir og mikið hlegið, mun þessi ferð seint gleymast.
Þú varst okkar fyrirmynd í svo mörgu enda margt til lista lagt. Allur þinn kærleikur og væntumþykja hefur gert okkur að því sem við erum í dag.
Takk elsku mamma fyrir allt sem þú hefur gefið okkur í lífinu og erum við þér að eilífu þakklát.
Það verður erfitt að geta ekki faðmað þig og heyrt hlátur þinn. Þú verður alltaf elskuð og aldrei gleymd. Við kveðjum þig með tárvot augu og söknuði, elsku fallegi engilinn okkar.
- Við kveðjum þig elsku mamma
- með kinnar votar af tárum
- á ást þinni var enginn vafi,
- til okkar við gæfu þá bárum.
- Horfin er hönd þín sem leiddi
- á hamingju- og gleðifundum,
- ástúð er sorgunum eyddi
- athvarf á reynslustundum.
- Margt er í minninga heimi
- mun þar ljósið þitt skína,
- englar hjá guði þig geymi
- við geymum
svo minningu þína.
(Höf. ók.)
Þín börn, Fanney, Írís, Oddur og Nína.
---------------------------------------------------------------
Nú er komið að kveðjustund þegar við kveðjum elsku tengdamömmu, Ernu Oddsdóttur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Ernu mjög ungur og vil ég þakka henni og Hauki hversu vel þau tóku á móti mér og buðu mig velkominn í fjölskyldu sína. Ég á ótrúlega margar minningar um góða tengdamömmu sem reyndist mér mjög vel. Fjölskyldan var alltaf í fyrsta sæti hjá henni og var henni mjög annt um hana.
Hún var alltaf tilbúin að hjálpa og létta undir með okkur og var stórkostleg amma fyrir börnin okkar. Þær eru ófáar minningarnar frá því við ferðuðumst saman bæði í Evrópu og heimsókn til dóttur okkar í BNA. Ernu verður sárt saknað því hún var stór og mikilvægur hluti af okkar fjölskyldu. Ég á henni mikið að þakka og ég veit að Haukur tekur vel á móti henni þar sem ég veit að hún saknaði hans mikið.
- Fyrir allt sem okkur varstu
- ástarþakkir færum þér.
- Gæði og tryggð er gafstu
- í verki góðri konu vitni ber.
- Aðalsmerkið: elska og fórna
- yfir þínum sporum skín.
- Hlý og björt í hugum okkar
- hjartkær lifir minning þín.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þinn tengdasonur, Þorkell.
-------------------------------------------------------------
Ég á margar góðar minningar um hana elsku ömmu mína, og átti með henni og afa æðislegar stundir í Lammhult.
Það var aldrei langt í ævintýrin með þeim og alltaf eitthvað um að vera. Mér verður hugsað til tímanna á Flipper og öllum litlu eyjunum sem við skoðuðum.
Gönguferðirnar út í skóg að tína ber voru líka afar skemmtilegar og kenndu þau okkur krökkunum hvernig ætti að forðast snáka og önnur dýr, það var voða gaman að læra um þetta ævintýraland sem þau bjuggu í.
Með henni var alltaf stutt í hláturinn og hafði hún alltaf sögur að segja, jafnvel þótt hún svæfi.
Amma var hjartahlý og sterk kona, ég mun aldrei gleyma hlátri hennar og brosi, hlýju hennar og góðmennsku í allra garð.
- Þerraðu kinnar þess, er grætur.
- Þvoðu kaun hins særða manns.
- Sendu inn í sérhvert hjarta
- sólargeisla kærleikans.
(Höf. ók.)
Söknuðurinn er mikill en hún er komin til afa, þó að þau hvíli eru þau mér enn við hlið.
Hvíldu í friði elsku amma mín.
Marinó Fannar.
--------------------------------------------------------
Elsku besta amma, ég sakna þín. Ég var svo sannarlega heppin að eiga þig sem ömmu mína, svo falleg og góð sál. Þú varst svo full af hamingju og umhyggju, aldrei var langt í faðmlag og ást. Þú hjálpaðir mér í gegnum marga erfiða tíma og varst fljót að breyta gráti í hlátur. Ef ég mætti ráða þá værum við í yndislegu ömmuvíkinni með elsku afa, á okkar allra besta Flipper. Ég mun aldrei gleyma öllum æðislegu minningunum okkar.
Þegar við bökuðum allan daginn og síðan var spilað öll kvöld. Allar bátsferðirnar með afa og allir ísbíltúrarnir. Þegar við hjóluðum út um allt Lammhult aftur og aftur, alltaf jafn fallegt og yndislegt að hugsa til baka og rifja þetta allt upp. Lífið var bara svo ljúft og gott þegar maður var ungur, og Lammhult var minn uppáhaldsstaður til að vera á. Það er svo erfitt að kveðja en ég veit að þú ert á betri stað með afa loks á ný.
Ég veit að afi tók vel á móti þér
með nýbökuðum kökum og bakkelsi og auðvitað má ekki gleyma spilunum, því ég veit ekki með ykkur en ég er að verða betri og betri. Þið tvö byggðuð svo skemmtilegt
líf saman og gullfallega stóra fjölskyldu, ég er svo ánægð að vera hluti af henni því það getur enginn toppað ykkur tvö. Ég er endalaust þakklát fyrir tímann
sem ég eyddi með ykkur og allt það sem við gerðum saman. Það mun aldrei koma sá dagur sem ég hugsa ekki til ykkar því ég veit þið verðið alltaf hjá mér,
sama hvað. Þið stóðuð alltaf með mér og þakka ég ykkur endalaust fyrir það.
Takk fyrir að vera best. Elska þig og afa til tunglsins og til baka.
Elín Elísabet
Bjarnadóttir.
-------------------------------------------------------------------
Ég gæti endalaust rifjað upp allar yndislegu minningarnar sem ég á um elsku ömmu. Amma var svo elskuleg og alltaf jafn glæsileg!
Allar bátsferðirnar okkar út í eyju og í ömmuvíkina. Yndislegu minningarnar þegar við löbbuðum í skóginn að tína ber og spjölluðum saman.
Ég var mikið heima hjá ömmu og afa þegar ég bjó í Svíþjóð og var amma alltaf eitthvað að gera og fannst mér alltaf svo gaman að fá að hjálpa henni að elda, baka eða bara hvað sem hún var að brasa. Það gleður mig svo að þú hafir fengið tækifæri að hitta Hilmi Leó, ég veit að þú vakir yfir okkur öllum og fylgist með. Það eru allir sammála því þegar ég segi að þú sért besta amma sem einhver gæti óskað sér.
Elsku amma, ég elska þig og sakna.
Þín Rebekka Margrét.
------------------------------------------------------------------------
Það er svo margs að minnast þegar við hugsum um elsku Ernu ömmu okkar. Það var alltaf svo skemmtilegt í kringum þig og alltaf stutt í hláturinn hjá þér. Þér leið alltaf best með alla í kringum þig, enda hélstu fast utan um okkar fjölskyldu. Við vorum svo heppin að hafa þig og afa nálægt okkur þegar við vorum að alast upp og eigum svo margar góðar og fallegar minningar um ykkur sem við geymum vel í hjarta okkar.
Alltaf tókst þú á móti okkur með björtu brosi, góðum ráðum og nýbökuðum kanilsnúðum.Við söknum þín svo sárt og það er svo erfitt að hugsa til þess að við fáum ekki að sjá þig, faðma, kyssa og heyra í þér fallega hláturinn. Elsku engillinn okkar, nú hvílir þú hjá afa. Minningin um yndislega ömmu verður alltaf í hjartanu.
Ömmur eru bestar!
- Við kveðjum þig amma, með söknuð í hjarta,
- en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.
- Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi
- og algóður Guð á himninum þig geymi.
(Sigfríður Sigurjónsdóttir)
Dóra og Arnór.
------------------------------------------------
Samband mitt við ömmu mína var einstakt. Ég var skírð í höfuðið á henni og fannst það alltaf gefa okkur sérstök tengsl og þótti mér afar vænt um það.
Amma var viðstödd fæðinguna mína í Svíþjóð og hefur alla tíð fylgt mér í gegnum lífið, hún kenndi mér svo margt, bernskutrúna mína fékk ég frá ömmu, hún fór með bænirnar með mér öll kvöld og sagði mér sögur þar til ég sofnaði. Þrátt fyrir að ég flytti frá Svíþjóð tveggja ára gömul finnst mér barnæska mín einkennast af hvíta og bláa húsinu ömmu og afa í Lammhult því þangað fór ég öll sumur og eyddi þeim í að baka kanilsnúða með ömmu, brasa með afa í bílskúrnum og vinna með þeim í garðinum sem var alltaf svo fallegur.
Amma ljómaði alltaf þegar ég kom til hennar, spurði mig áhugasöm um allt sem gengi á í lífi mínu og hrósaði mér í bak og fyrir, fyrir smávægilegustu hluti sem henni þótti svo merkilegir. Svo hló hún svo fallega, eins og lítil mús, það var alltaf stutt í hláturinn hjá henni og man ég ekki eftir einu einasta atviki þar sem hún var mér reið eða skammaðist í mér en ég man eftir óteljandi hlátursköstum sem við áttum saman þar sem við táruðumst og gátum ekki hætt að skríkja. Hún var með svo hlýja nærveru, ég var alltaf örugg hjá henni og vissi að ég gæti aldrei valdið henni vonbrigðum, hún myndi alltaf elska mig skilyrðislaust, ég var litla Ernan hennar.
Amma elskaði að synda og við fórum í endalausar ferðir í ömmuvík á bátnum hans afa með nesti, það var alltaf ævintýri á næsta leiti með þeim.
Hún var ofurkona; hún hjólaði, labbaði, synti og lék með okkur barnabörnunum alla daga allt sumarið ofan á það að baka, elda og þrífa allt hátt og lágt, það var alltaf svo fínt hjá henni.
Ég man hvað það var henni erfitt þegar hún gat ekki bakað lengur eftir að hún fór að veikjast, hana langaði svo að baka kanilsnúða, við bökuðum þá fyrir hana en snúðarnir voru harðir en ekki mjúkir eins og þeir áttu að vera en hún borðaði þá samt og sagði þá dásamlega.
Hún var ekki söm eftir að afi fór til himna og hrakaði henni hægt en stöðugt síðustu árin. Ég er þakklát fyrir að hún fékk að hitta Malín Ósk og mun ég segja henni frá þessari stórkostlegu langömmu sem hún átti um ókomna tíð.
Nú hefur afi tekið vel á móti þér og þú færð loks að hvílast.
Ég elska þig amma mín og mun minnast þín með okkar uppáhaldsbæn sem við fórum með mikið saman.
- Láttu nú ljósið þitt
- loga við rúmið mitt,
- hafðu þar sess og sæti,
- signaður Jesús mæti.
- Þar til við hittumst næst.
Þín nafna, Erna Margrét Oddsdóttir.
-----------------------------------------------------------------
Í dag kveð ég Ernu ömmu með sorg í hjarta og langar að minnast nokkrum orðum ömmu, einnar bestu manneskju sem ég hef umgengist og heiður að fengið hana sem ömmu. Æskuminningar mínar um hana eru frá Siglufirði og Svíþjóð þar sem ég naut nærveru hennar nánast daglega þegar ég bjó þar.
Betri ömmu er varla hægt að fá. Næturpössun hjá ömmu og afa var í sérstöku uppáhaldi. Það var alveg sama hvað gekk á og hversu mikil læti voru í okkur frændsystkinunum, alltaf hélstu ró þinni og yfirvegun. Þú talaðir okkur til og raðaðir í okkur heimabökuðum snúðum og öðru góðgæti. Þess á milli baukaði maður eitthvað úti í skúr með afa þar sem hann bjó til boga eða kenndi manni hnúta. Elsku amma, núna ertu komin til afa og ég veit að ykkur líður vel. Minning þin mun lifa.
- Við kveðjum þig elsku amma mín,
- í upphæðum blessuð sólin skín,
- þar englar þér vaka yfir.
- Með kærleika ert þú kvödd í dag,
- því komið er undir sólarlag,
- en minninga ljós þitt lifir.
(Halldór Jónsson frá Gili)
Þorleifur.
-----------------------------------------------------------
Þar sem amma var þar var hlátur og gleði, hún kom öllum í gott skap. Hún bar mikla umhyggju fyrir okkur öllum. Það er erfitt að útskýra tómleikann sem hún skilur eftir sig og allar minningarnar sem ég á um yndislegu ömmu. Elsku amma, takk fyrir allt, ég mun ætíð sakna þín.
- Þú varst okkur amma svo undur góð
- og eftirlést okkur dýran sjóð,
- með bænum og blessun þinni.
- Í barnsins hjarta var sæði sáð,
- er síðan blómgast af Drottins náð,
- sá ávöxtur geymist inni.
- Við allt viljum þakka amma mín,
- indælu og blíðu faðmlög þín,
- þú vafðir oss vina armi.
- Hjá vanga þínum var frið að fá
- þá féllu tárin af votri brá,
- við brostum hjá þínum barmi.
- Við kveðjum þig elsku amma mín,
- í upphæðum blessuð sólin skín,
- þar englar þér vaka yfir.
- Með kærleika ert þú kvödd í dag,
- því komið er undir sólarlag,
- en minninga ljós þitt lifir.
- Leiddu svo ömmu góði guð
- í gleðinnar sælu lífsfögnuð,
- við minningu munum geyma.
- Sofðu svo amma sætt og rótt,
- við segjum af hjarta góða nótt.
- Það harma þig allir heima.
- (Halldór Jónsson frá Gili)
Hörður Agnar.
-------------------------------------------------------------------
Í dag kveð ég elsku Ernu frænku, móðursystur mína.
Ég á henni margt að þakka, ást, umhyggju, stuðning og góð ráð.
Samveran við hana og Hauk er mér ómetanleg.
- Ég sendi þér kæra kveðju,
- nú komin er lífsins nótt.
- Þig umvefji blessun og bænir,
- ég bið að þú sofir rótt.
- Þó svíði sorg mitt hjarta
- þá sælt er að vita af því
- þú laus ert úr veikinda viðjum,
- þín veröld er björt á ný.
- Ég þakka þau ár sem ég átti,
- þá auðnu að hafa þig hér.
- Og það er svo margs að minnast,
- svo margt sem um hug minn fer.
- Þó þú sért horfin úr heimi,
- ég hitti þig ekki um hríð.
- Þín minning er ljós sem lifir
- og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Blessuð sé minning elsku frænku.
Gunnfríður (Gunný).
----------------------------------------------------------------------
Það er margs að minnast þegar kveðja á hana Ernu mína, hún var einstök kona. Hún var mjög góðhjörtuð, glaðvær og hafði einstaka nærveru sem fólk laðaðist að. Hún hafði alltaf tíma til að hlusta og gefa góð ráð til þeirra sem til hennar leituðu. Það voru margar góðar ferðir sem farnar voru til Svíþjóðar að heimsækja Ernu og Hauk sem allar voru yndislegar og dýrmætar og einstakar.
Börnin löðuðust að þeim enda var þeim alltaf gefinn tími fyrir spjall og dundað eitthvað skemmtilegt eins og farið á Flipper í ömmuvík. Hún fylgdist vel með sínu fólki, hvernig þau hefðu það og hvað var að gerast í þeirra lífi. Hennar verður sárt saknað þessarar skemmtilegu og glaðværu konu sem nú er komin til hans Hauks síns í Sumarlandið. Guð blessi minningu ykkar beggja.
- Umhyggju og ástúð þína
- okkur veittir hverja stund.
- Ætíð gastu öðrum gefið
- yl frá þinni hlýju lund.
- Gáfur prýddu fagurt hjarta
- gleðin bjó í hreinni sál.
- Í orði og verki að vera sannur
- var þitt dýpsta
hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þinn tengdasonur Bjarni.
--------------------------------------------------------------
HINSTA KVEÐJA
Elsku amma mín, mér þykir sárt að þurfa að kveðja þig, en það huggar mig þó að vita að þér líður betur núna og ert hjá afa. Eftir standa
margar góðar minningar um góða ömmu.
- Nú er tíminn liðið hefur,
- en samt ég sakna þín,
- Dag hvern þú kraft mér gefur
- ég veit
þú gætir mín.
(Steinunn Valdimarsdóttir)
Elsku amma, þú varst alltaf svo hugljúf, góð og fyndin. Minningin um allar góðu stundirnar
sem við áttum saman og kvöldsögurnar sem þú sagðir fyrir háttinn. Það var alltaf svo eftirminnilegt og kærleiksríkt þegar þú fórst með faðirvorið fyrir
svefninn. Nú ertu komin til afa og þið vakið og fylgist með okkur.
Kær kveðja í himnaríki,
Haukur Örn.